Í hverju felst þjálfunin?
Starfið felst í kynningu og kennslu á hinum ýmsu þáttum björgunarstarfsins, þ.á.m. ferðamennsku, rötun, kortalestri, fjallamennsku, sigi, fyrstu hjálp, leitartækni og fleiru. Auk námskeiðanna eru stundaðar æfingar tengdar ofangreindum þáttum og unglingarnir taka þátt í æfingum björgunarsveita þar sem þeir leika sjúka og slasaða sem þurfa á aðstoð að halda.
Fjölbreytt starf
Í unglingastarfinu er lögð mikil áhersla á hópefli, þar sem samvinna og samheldni er efld í hópnum. Unglingarnir koma oft úr ólíkum áttum og þekkjast ekki í upphafi en í starfinu kynnast þeir öðrum með svipuð áhugamál og verða fljótt félagar. Unglingastarfið er fjölbreytt og fara unglingarnir bæði í dags- og helgarferðir og heimsækja aðra viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkvilið eða Neyðarlínuna. Mikið samstarf er milli unglingadeilda og oft heimækja unglingarnir aðrar deildir og gera eitthvað skemmtilegt saman.