Unglingastarf

Í Slysavarnafélaginu Landsbjörg er öflugt unglingastarf í 48 unglingadeildum um land allt. Björgunarsveitafólk framtíðarinnar stígur oftar en ekki sín fyrstu skref í unglingastarfi. Þar fá ungmenni leiðsögn frá reyndu björgunarsveitafólki, öðlast færni og þekkingu á björgunarstörfum og læra að athafna sig í kraftmikilli náttúru Íslands. Starfið eru fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára.

Björgunarsveitarfólk framtíðarinnar

Í hverju felst þjálfunin?

Starfið felst í kynningu og kennslu á hinum ýmsu þáttum björgunarstarfsins, þ.á.m. ferðamennsku, rötun, kortalestri, fjallamennsku, sigi, fyrstu hjálp, leitartækni og fleiru. Auk námskeiðanna eru stundaðar æfingar tengdar ofangreindum þáttum og unglingarnir taka þátt í æfingum björgunarsveita þar sem þeir leika sjúka og slasaða sem þurfa á aðstoð að halda.

Fjölbreytt starf

Í unglingastarfinu er lögð mikil áhersla á hópefli, þar sem samvinna og samheldni er efld í hópnum. Unglingarnir koma oft úr ólíkum áttum og þekkjast ekki í upphafi en í starfinu kynnast þeir öðrum með svipuð áhugamál og verða fljótt félagar. Unglingastarfið er fjölbreytt og fara unglingarnir bæði í dags- og helgarferðir og heimsækja aðra viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkvilið eða Neyðarlínuna. Mikið samstarf er milli unglingadeilda og oft heimækja unglingarnir aðrar deildir og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Unglingadeildir víða um land

Unglingadeildirnar starfa í tengslum við björgunarsveitir félagsins víða um land. Þar kynnast unglingarnir starfi björgunarsveita og slysavarnadeilda. Þeir sækja gagnleg námskeið og fá tækifæri til að ferðast um landið og öðlast í leiðinni innsýn í hvernig ber að varast þær hættur sem íslensk náttúra býr yfir.

Hleður korti

Ungmennaráð

Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar er starfandi ungmennaráð þar sem unglingar í félaginu hafa bein áhrif á unglingastarfið. Félagar í unglingadeildum kjósa sér fulltrúa í ráðið sem koma svo skoðunum sínum og tillögum til viðeigandi aðila innan félagsins, hvort sem það er starfsfólk, nefndarmenn eða stjórn.

Þá mun ungmennaráð gæta hagsmuna ungs fólks í félaginu með umfjöllun og umsögn um einstök mál er snerta aldurshópinn. Einnig er tilgangurinn sá að þeir sem sitja í ungmennaráði öðlist reynslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum, læri á stjórnkerfi og fundarsköp SL ásamt því að veita stjórn og starfsfólki ráðgjöf um framtíðarsýn ungs fólks í félaginu.

Hægt er að koma með erindi eða hafa samband við ráðið á netfangið ungmennarad@landsbjorg.is

Æskulýðsvettvangurinn

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann var stofnaður 2007 með það markmið að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslumála, kynningarmála og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Fjöldi námskeiða er haldin á ári hverju eins og námskeið um hvernig bregaðst eigi við ofbeldi gegn börnum og námskeið í barnavernd.

Innan vébanda hans er stærsti hluti barna og ungmenna í landinu á aldrinum 6 til 25 ára. Þar eru starfandi fjölmörg félög í þéttbýli og dreifbýli um allt land, sem hafa innan sinna vébanda þúsundir sjálfboðaliða sem leggja á sig ómælda vinnu til hagsbóta fyrir samfélagið.