Raunfærnimat

Mjög margir hafa aflað sérþekkingar og reynslu á hinum ýmsu sviðum án þess að hafa tekið formleg námskeið. Nú geta þessir einstaklingar farið í raunfærnimat og fengið þessa reynslu metna og skráða.

Hvernig gengur þetta fyrir sig?

Einstaklingur er gjaldgengur í raunfærnimat ef viðkomandi getur sýnt fram á a.m.k. 3 ára reynslu í starfi með/í:

  • Björgunarsveit
  • Með öðrum viðbragðsaðilum (lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningar eða þess háttar)
  • Útivistarfélagi (ferðafélag, skátar eða þess háttar)
  • Afþreyingaferðamennsku

Viðkomandi getur óskað eftir því við Björgunarskólann að komast í raunfærnimat á viðkomandi sviði (námskeiði) með því að senda tölvupóst í skoli(hjá)landsbjorg.is eða með því að hringja í 570 5900. Mun skólinn þá bregðast við með þeim hætti að koma á formlegu raunfærnimati fyrir viðkomandi innan 30 daga.

Raunfærnimatið fer þannig fram að einstaklingur fer í sjálfsmat. Ef niðurstaðan á því er nægilega góð getur viðkomandi farið í viðtal til leiðbeinanda sem metur hvort sú þekking sem til þarf sé í raun til staðar.

Sjálfsmat

Raunfærnimatið fer þannig fram að viðkomandi einstaklingur byrjar á því að taka sjálfsmat í fjarnámskerfi Björgunarskólans. Niðurstaðan úr sjálfsmatinu ákveður hvert framhaldið verður.

Einkunn úr sjálfsmati
0–4,9:
Viðkomandi er bent á að fara á grunnnámskeið í viðkomandi fagi
5,0–6,9: Viðkomandi er bent á að fara á upprifjunarnámskeið og reyna svo aftur við sjálfsmatið
7,0–10: Viðkomandi getur haldið áfram í raunfærnimatinu og fer í viðtal með leiðbeinanda

Viðtal við leiðbeinanda

Þegar sjálfsmati er lokið með 7 eða hærra í einkunn er viðkomandi gjaldgengur í viðtal við leiðbeinanda. Í viðtalinu metur leiðbeinandinn dýpt þekkingar út frá gildandi gátlista hverju sinni. Þá gæti viðkomandi einnig þurft að leysa stutt verkefni í matinu. Að matinu loknu tekur leiðbeinandinn saman niðurstöðu og gerir þátttakandanum grein fyrir niðurstöðu þess. Ef hann hefur ekki staðist matið þá fær hann upplýsingar um með hvaða hætti má auka við þekkinguna/reynsluna til þess að klára raunfærnimatið.

Hvaða námskeið get ég látið meta?

Í dag er hægt að taka raunfærnimat í eftirfarandi námskeiðum:

  • Fyrsta hjálp
  • Leitartækni
  • Ferðamennska
  • Rötun
  • Fjallamennska
  • Snjóflóð 1
  • Fjarskipti 1

Þá er á stefnuskrá Björgunarskólans að koma á raunfærnimati í fleiri námskeiðum í Björgunarmanni 2 sem þurfa þykir.

Ef einhverjar spurningar eða athugasemdir vakna varðandi raunfærnimat hjá Björgunarskólanum þá hafið samband í 570 5900 eða skoli(hjá)landsbjorg.is. Við viljum endilega heyra í ykkur.