Það er ekki of djúpt í árina tekið að desember hafi verið annasamur hjá björgunarsveitum um nánast allt land.
Eftir óvenjulega veðurblíðu nánast allt haustið, mætti veturinn með hvelli um miðjan desember. Fyrsta útkallið var vegna nokkurra fastra bíla í Lögbergs brekkunni austan Reykjavíkur, að kvöldi 16. desember. Aðstoðarbeiðnum fjölgaði fljótt, og þegar veðrið gekk yfir Reykjanes, voru nánast allar sveitir á SV horninu komnar til aðstoðar. Á Grindavíkurvegi var unnið þrekvirki þegar mörg hundruð ferðamenn urðu innlyksa, annað hvort vegna þess að þeir festu bíl sinn, eða komust ekki áfram sökum þess að bíll á undan festi sig. Skafrenningurinn sá svo um að vel fennti að öllum bílum sem voru stopp. Alla þá nótt voru björgunarsveitir í því að losa bíla og ferja fólk í tvær fjöldahjálparstöðvar sem opnaðar voru í Grindavík, í björgunarsveitarhúsinu til að byrja með, og í Bláa lóninu. Fljótlega varð ljóst að björgunarsveitarhúsið í Grindavík var of lítið til að hýsa fjöldann sem var komið í skjól, og því var fjöldahjálparmiðstöðin flutt í íþróttahúsið. Á suðurlandi, frá Hellisheiði og austur fyrir Vík í Mýrdal var svipaða sögu að segja. Fjöldi ferðamanna sat fastur í bílum og björgunarsveitir að störfum nánast hvern dag. Á aðfangadagskvöld þurftu félagar í Víkverja í Vík í Mýrdal að hlaupa frá jólamatnum til aðstoðar ferðalöngum í Mýrdal.
Það má segja í nánast hálfan mánuð hafi ástandið verið svipað, mikil ófærð, sérstaklega á Suðurlandi og SV horni landsins, en jafnframt fjöldi verkefna um allt land. Þegar þessum óveðurskafla slotaði svo loks milli jóla og nýárs, höfðu nánast allar björgunarsveitir landsins hafi á einn eða annan hátt þurft að sinna óveðursaðstoð, í sinni heimabyggð, eða með stuðningi við nágrannasveitir. Nokkur þúsund manns hafði verið komið til aðstoðar. Þetta var gott þolpróf á kerfið, sem stóðst væntingar, og bjargir færðar til eftir þörfum, til að létta undir eða leysa af hópa sem staðið höfðu vaktina lengi. Stór tæki eins og trukkar og snjóbílar sönnuðu gildi sitt, en þeim var meðal annars komið fyrir við slökkvistöðvar til að fylgja sjúkra- eða slökkvibílum í útkall.