Fljótlega eftir að appelsínugular veðurviðvaranir tóku gildi klukkan tíu að morgni þá bárust fyrstu útköll björgunarsveita vegna veðursins. Þetta er ekki fyrsta lægðin sem sveitirnar hafa þurft að glíma við á árinu og voru þær því klárar að bregðast útköllum dagsins, alveg á tánum án upphitunar.
Á hádegi höfðu björgunarsveitir verið kallaðar út í Hveragerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Grindavík, Hellu og VÍk, í öllum tilfellum vegna foks á þakplötum eða klæðningum. Það er því óhætt að segja að veðurspáin hafi ræst að miklu leiti.
Frameftir degi héldu útköllin áfram að berast, einna flest voru þau á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestmannaeyjum, seinni part dags bættust við nokkur útköll á Akranesi. Óvenju algeng voru verkefni, eins og fyrr segir, þar sem þakplötur, klæðningar og þakkantar voru að fjúka. Einnig var tilkynnt um fok á lausamunum, brota glugga, foktjón á byggingasvæðum, grilla að fjúka, já og trampolín, sem má kalla algeng eða hefðbundin verkefni fyrir björgunarsveitir í aðstæðum sem þessum.
Einnig þurfti björgunarsveitafólk að huga að bátum í höfnum í nokkrum tilfellum, aðalega á Suðurnesjum.