Laugardagurinn 11. Febrúar, eða 112 dagurinn, var tíðindamikill. Auk þátttöku í viðamikilli dagskrá í Hörpu í Reykjavík var dagurinn annasamur hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Í Reykjavík fór að hvessa verulega um morguninn og fyrstu sveitir voru kallaðar út klukkan rétt rúmlega 11, þegar þakplötur fóru að losna í Breiðholti.
Þessu útkalli fylgdi svo straumur útkalla þennan dag, þar sem sveitir allt frá Hellu, vestur um og á Reykjanesi, nánast öllu Vesturlandi og inn á Tröllaskaga voru kallaðar út í óveðursaðstoð.
Beiðnir um aðstoð streymdu inn til Neyðarlínu. Veðrið var slæmt á höfuðborgarsvæðinu en sennilega náði vindstrengurinn sér mest upp á utanverðu Snæfellsnesi þar sem björgunarsveitir þar stóðu í ströngu.
Veðrið hafði talsverð áhrif á dagskrá 112 dagsins, en hætta þurfti við siglingu björgunarbáta að Hörpu, og hætt var við að hífa fólk úr höfninni um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Deginum lauk svo á útkalli á björgunarskipið Kobba Láka í Bolungarvík, þegar sækja þurfti sjómann sem slasast hafði á hendi um borð í togara í Ísafjarðardjúpi. Vel gekk að koma honum milli skipa og lauk aðgerðinni rétt fyrir klukkan 11 um kvöldið þegar maðurinn var kominn á sjúkrahúsið á Ísafirði.
Viðburðaríkum 112 degi lokið, sem einkenndist fyrst og fremst af fjölbreyttum verkefnum á vestanverðu landinu. Víða um land gafst þó einingum félagsins tóm til að sinna dagskrá dagsins og vekja athygli á starfsemi sinni og annara viðbragðsaðila í sinni heimabyggð.