Krefjandi aðstæður á hálendinu
Fleiri en 230 sjálfboðaliðar frá björgunarsveitum tóku þátt. Eysteinn var einn þeirra en auk þess að taka þátt í leitinni eins og útkallið snerist um þurfti hann einnig að beita skyndihjálp og endurlífgunaraðgerðum þegar einn úr hópnum fór í hjartastopp á vettvangi.
„Ég kom inn í seinni bylgjunni til að leysa fyrsta hópinn af,“ segir Eysteinn og útskýrir að löng leið var að slysstaðnum þar sem fyrst þurfti að keyra inn í Landmannalaugar og þaðan inn í Jöklagil. Þaðan var ekið yfir Laugarkvísl en síðan tók við 45 mínútna ganga yfir fjallahrygg að slysstað.
„Þegar ég kem er búið að gera göt inn í snjódyngjuna en maðurinn hafði runnið af henni og undir hana með ánni. Þegar þarna var komið við sögu voru kafararnir að koma frá slökkviliðinu og okkar hlutverk var að aðstoða þá. Þyrlupallurinn var staðsettur talsvert fyrir ofan slysstaðinn og því þurfti að flytja mjög mikinn búnað frá pallinum og niður eftir. Þetta var heilmikið brölt og við vorum að allan daginn en köfunin skilaði því miður ekki árangri. Að lokum var ákveðið að draga saman og flytja allan búnaðinn aftur upp að þyrlupallinum. Þarna var mannskapurinn orðinn nokkuð þrekaður eins og gefur að skilja. En þar sem við erum að flytja búnaðinn hnígur einn úr hópnum niður. Ég og maður frá slökkviliðinu stöndum næst honum og það var strax ljóst að honum hafði ekki skrikað fótur eða þess háttar. Hér var alvara á ferðum. Fljótlega missti hann meðvitund og við hófum endurlífgun strax,“ segir Eysteinn sem beitti hjartahnoði á vettvangi. Hann segir vinkonu sína úr Flugbjörgunarsveitinni strax hafa gert sér grein fyrir hvað hafði gerst og gert öðrum viðvart um að hætta þyrfti öllum öðrum aðgerðum og einbeita sér að því að koma félaga þeirra til hjálpar.
„Það ótrúlega var að þyrlan var einmitt komin á svæðið og byrjuð að hífa upp eitthvað af búnaðinum. Hún hætti því um leið og náði að lenda með sigmann sem var með hjartastuðtæki meðferðis. Það liðu því varla meira en 5 mínútur frá því að maðurinn hnígur niður þar til hann fær hjartastuð með tækinu og kemst til skertrar meðvitundar. Þá fékk ég einhvern vegin strax á tilfinninguna að þetta myndi ganga, að hann myndi hafa það af. Hann var svo hífður upp og flogið með hann á spítala.“
Við tók bið eftir að þyrlan kæmi aftur. Í raun var búið að ganga frá öllum búnaðinum eftir langan og erfiðan dag og vatnsmagnið hafði aukist verulega í ánni. Það var því nánast fyrir tilviljun að björgunarsveitafólk kom auga á manninn sem leitað hafði verið að í einni af holunum sem búið var að grafa í snjódyngjuna. Hann var þá látinn.