Þrettán ára gamall hélt Ómar Örn Sigmundsson í fyrstu launuðu sjóferðina á beitukóngsveiðar í Breiðafirði. Eftir það varð ekki aftur snúið og allar götur síðan hefur hann lifað og hrærst á sjó. Auk þess að vera sjómaður á togaranum Páli Pálssyni ÍS 102 er Ómar yfirleiðbeinandi í Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar á sviði sjóbjörgunar.
„Bróðir minn var í Björgunarsveitinni Tindum í Hnífsdal. Ég man eftir því að hafa vaknað við hann að græja sig snemma morguns árið 1995 þegar snjóflóðið féll fyrir vestan og hvað mér fannst þetta spennandi og aðdáunarvert að til væru menn sem æða út í hvað sem er til að aðstoða náungann. Um leið og ég hafði aldur til var ég mættur í unglingastarfið og síðan eru kominn 25 ár.“
Ómar segir þróunina frá unglingastarfinu og yfir í að verða yfirleiðbeinandi hjá Björgunarskólanum hafa gerst nokkuð náttúrulega. Hann segir sama eiga við um sig og flest björgunarsveitarfólk á landsbyggðinni – að vera nokkuð úrræðagóður í flestu sem upp getur komið.
„Ég fann það samt fljótt að hugur minn leitaði frekar til hafs en fjalla og hef þess vegna reynt að sérhæfa mig í sjóbjörgun með því að sækja mér þekkingu og reynslu sem bæði kemur í gegnum starfið í björgunarsveit og sem atvinnusjómaður.“