Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Suðurnes

Segja má að þátttaka í björgunarsveit sé oftar en ekki lífstíll frekar en áhugamál og oft eru heilu fjölskyldurnar afar virkar í starfinu. Það er raunin hjá hjónunum Halldóri Halldórssyni og Ragnheiði Ragnarsdóttur en ferill þeirra í björgunarsveit spannar marga áratugi. Á þeim tíma hafa þau upplifað margt. Erfið útköll, samheldni og einingu sveitarinnar og félagsskap sem jafnast á við fjölskyldubönd.

Halldór hefur víða komið við á björgunarsveitaferli sínum sem spannar tæplega fimm áratugi. Um nokkurra ára skeið var hann virkur í þremur björgunarsveitum í einu en bætir við að það hafi verið á þeim tíma sem hann var einhleypur enda hafi fátt annað komist að í lífinu en vinnan og sjálfboðaliðastarfið í sveitunum.
„Ég er frá Húsavík og byrjaði þar í björgunarsveitinni Garðari 1977. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur árið 1980 byrjaði ég í flugbjörgunarsveitinni og var þar í þrjú ár eða þar til ég fluttist suður með sjó og gekk til liðs við björgunarsveitina Stakk.“
Í þeirri sveit var fyrir Keflvíkingurinn Ragnheiður Ragnarsdóttir og þar lágu leiðir hjónanna núverandi fyrst saman þó svo að á þessum tíma hafi þau bæði verið bundin í báða skó. Þau voru í gönguhópum og tóku virkan þátt í starfi sveitarinnar og lífið leiddi þau loks saman árið 2017. Björgunarsveitin Stakkur í Keflavík og Hjálparsveit skáta í Njarðvík sameinuðust árið 1994 undir merkjum björgunarsveitarinnar Suðurnes og í henni eru bæði Halldór og Ragnheiður enn virkir meðlimir.

Ein stór björgunarsveitafjölskylda

Halldór segir félagsskapinn í björgunarsveitum einstakan og þar komi saman löngunin til að láta gott af sér leiða, að vera innan um gott fólk og njóta útivistar. Ragnheiður tekur heilshugar undir þetta.
„Ég var mikill skáti hér áður fyrr og í björgunarsveitinni í dag eru nokkrir félagar sem voru hjá mér í skátaflokki. Í björgunarsveit koma kynslóðirnar saman og þetta verða eins og börnin manns. Þegar við hittumst á fundi niðri í húsi og erum þarna öll saman þá líður manni eins og þetta sé ein stór fjölskylda. Þegar síðasta gos hófst fór Halldór í útkallið, ég fór niður í hús og fylgdist þar með fjarskiptum og nokkrir úr unglingadeildinni flykktust þangað. Þeim fannst þetta allt svo áhugavert og spennandi að vera með.
„Ég held að það sé mjög gott fyrir unglinga að byrja í unglingadeild í björgunarsveit. Það er gott fyrir alla,“ bætir Halldór við.

"Missti bæði af fermingunni og skírninni"

Pláss fyrir alla í björgunarsveit

Eins og að líkum lætur hafa þau Ragnheiður og Halldór fengist við afar fjölbreytt verkefni á löngum ferli sínum í björgunarsveit. Halldór fer enn í langflest útköll og Ragnheiður tekur sér meðal annars stöðu í ýmsum gæslustörfum á viðburðum, en var einnig við gæslu í fyrsta eldgosinu á Reykjanesskaga.
„Ég fer oftast niður í hús ef það er útkall og er kannski meira að vinna á bak við tjöldin núna ef svo má segja þar sem ég fer ekki í útkallið sjálft. Ég hef einnig verið mjög virk í starfi slysavarnadeildarinnar Dagbjargar frá stofnun hennar árið 2004. Við höfum séð um ýmsar slysavarnir, fjáraflanir á borð við flugeldasölu, skemmtifundi, bingó og fleira og erum virkir bakhjarlar björgunarsveitarinnar. Í lengri útköllum höfum við séð um mat og nesti fyrir björgunarsveitafólkið á vettvangi, erum þá í húsi að elda og förum svo með matinn á svæðin. Við erum alltaf til staðar. Núna, þegar ég er að nálgast sextugt, tek ég meiri þátt í gæslu og ýmsum verkefnum niðri í húsi. En þetta togar alltaf í mig og ég er alltaf tilbúin að hjálpa til.“
Halldór segir öll þessi ólíku verkefni skipta miklu máli fyrir starfið í heild sinni og það sé einmitt eitt af því góða við björgunarsveitastarfið – þar er pláss fyrir alla. Fólk taki þátt eftir bestu getu hverju sinni, taki sér jafnvel hlé, til dæmis þegar það er með ung börn, en komi svo jafnan aftur. Sjálfur mætir hann eftir fremsta megni í öll útköll. Björgunarsveitin Suðurnes spilar stórt hlutverk í flugslysaáætluninni á Keflavíkurflugvelli og hann segir afar mikilvægt að mæta í útköll sem snúi að þeirri starfsemi ef fólk mögulega getur.
„Einu sinni vorum við á leið í fermingu og skírn hjá barnabörnum. Við Ragnheiður áttum að vera skírnarvottar en svo kom útkall vegna farþegaflugvélar í vanda og ég varð að rjúka í það,“ útskýrir Halldór.
„Hann missti bæði af fermingunni og skírninni en náði þó veislunni. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna eru mjög oft að fórna því að geta tekið þátt í fjölskylduviðburðum því útköllin geta komið hvenær sem er,“ bætir Ragnheiður við.

"Einstakt á heimsvísu"

Snjóflóð, jarðskjálfti og leit á sjó

Halldór var lengi virkur í björgunarhundasveit Íslands og þjálfaði leitarhunda. Þegar snjóflóðin féllu á Súðavík og Flateyri fór hann í bæði útköllin með varðskipum til leitar með hund og minnist erfiðra sjóferða á hamfarasvæðin í aftakaveðri. Auk þess var hann í Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitinni og hann var einn þeirra sem héldu til Haítí í ársbyrjun 2010 eftir öflugan jarðskjálfta sem skók höfuðborgina Port au Prince og nærliggjandi héruð með miklu mannfalli og ómældri eyðileggingu.
„Haítí verkefnið gleymist aldrei. Þarna var hlutverk sveitarinnar fyrst og fremst að bjarga lifandi fólki úr rústunum, en við tókum líka þátt í öðrum verkefnum. Meðal annars leit að látnum. Þetta var ólýsanlegt og óraunverulegt. Öll þessi eyðilegging og að vinna í 40°C hita og sól var erfitt. Fjöldi látinna var gífurlegur og ég gleymi aldrei lyktinni sem lá yfir höfuðborginni.“

Útköllin skipta líklega hundruðum eftir allan þennan tíma og bæði eru þau sammála um að mörg þeirra séu erfið og sitji í þeim. Ragnheiður segir að henni líði seint úr minni leit að félaga þeirra úr björgunarsveitinni Stakki, sem drukknaði við æfingar.
„Það eru komin mörg ár síðan en þarna voru þrír félagar okkar við æfingar. Hann var í gúmmíbát á meðan hinir tveir voru við köfun. Þegar þeir koma upp var hann ekki í bátnum og við tók mjög umfangsmikil leit. Björgunarsveitir og margir bæjarbúar tóku þátt í leitinni þar sem leitað var meðfram strandlengjunni að félaga okkar. Hann fannst látinn nokkru síðar.
Ég man líka vel eftir flugslysinu í Ljósufjöllum árið 1986. Ég hafði alltaf sagt, alveg frá því að ég byrjaði í björgunarsveit, að ég myndi aldrei fara í útkall þar sem flugslys hefði orðið. Mér fannst tilhugsunin um það einfaldlega of erfið. Ég fór upp í björgunarsveitarhús og tók þátt í að setja búnað og fleira í bílana en Halldór fór í sjálft útkallið,“ rifjar hún upp.

Að vera í björgunarsveit er að miklu leyti frekar lífstíll en áhugamál þar sem félagsskapurinn skipar oftar en ekki stóran sess í lífi sjálfboðaliða árum og áratugum saman. Halldór og Ragnheiður segja félagsskapinn vera eitt af því allra besta við björgunarsveitastarfið og að þegar líði að fundi sé alltaf gott að hitta félagana. Útivistin og fjallgöngur, nokkuð sem ávallt hefur verið mikilvægur hluti af þeirra lífi, er jafnframt veigamikill þáttur í starfinu. En hvaða máli skiptir stuðningur Bakvarða og fólksins í landinu fyrir björgunarsveitirnar?

„Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu. Ég veit ekki hvar björgunarsveitirnar væru annars. Þær geta ekki starfað án þessa stuðnings,“ segir Halldór ákveðinn. Ragnheiður tekur undir og bætir við að slíkur stuðningur fari meðal annars í húsnæði, bíla, tæki, búnað og fleira.
„Við stundum líka fjáröflun fyrir sveitina og borgum fatnað og persónulegan búnað sjálf.“

Halldór segir það oft koma fram, sérstaklega hjá erlendum ferðamönnum, hversu gáttaðir þeir eru á þeirri þjónustu sem þeir fá frá björgunarsveitunum ef þörf krefur, og það án þess að þurfa að borga fyrir það.
„Ég held að þetta fyrirkomulag sé einstakt á heimsvísu. Við erum alltaf til staðar fyrir allt fólkið í landinu,“ segir hann að lokum.

Takk fyrir að lesa söguna

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum