Umhverfisstefna félagsins eru leiðbeiningar um það hvernig æskilegt er að starfsfólk og félagar
umgangist land og náttúru. Umhverfisstefnan nær til allra félags- og starfsmanna.
Umhverfisstefnunni er ætlað að minna félaga og starfsmenn á mikilvægi virðingar við náttúru og umhverfi. Umhverfisstefnunni er ætlað að varðveita gott orðspor félagsins, ímynd og
trúverðugleika.
Við leggjum sérstaka áherslu á eftirtalda þætti:
-Við tökum tillit til umhverfismála í allri starfsemi félagsins og stuðlum þannig að betra umhverfi til sjós og lands.
-Við sýnum viðkvæmum landssvæðum virðingu og leitumst við að valda sem minnstu tjóni í umhverfinu þegar unnið er við björgun, verið við æfingar eða á ferðalögum.
-Við höfum að leiðarljósi að utanvegaakstur sé ekki stundaður nema í brýnustu neyð og með eins litlum umhverfisáhrifum og kostur er.
-Við kynnum og hvetjum til vistvæns aksturs og siglinga.
-Við kynnum félögum Slysavarnafélagsins Landsbjargar umhverfismál og hvetjum þá til góðrar umgengni í störfum sínum.
-Við stefnum að því að setja okkur mælanleg markmið í umhverfismálum, svo sem varðandi endurvinnslu, innkaup og úrgang.
-Við fylgjum öllum stjórnvaldskröfum sem gerðar eru varðandi umhverfismál.
-Við vinnum í náinni samvinnu við félaga, viðskiptavini og þjónustuaðila um að þeir uppfylli umhverfismarkmið félagsins.
Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í umgengni við land og náttúru.