1. gr. Markmið
Markmið með þessari reglugerð er að upplýsa félagsfólk hvers vegna stjórn nýtir sér að skipa í nefndir og starfshópa um ákveðna málaflokka félagsins. Nefndarfólk eru fullgildir félagar úr grasrót félagsins.
2. gr. Tilgangur
Tilgangur þessarar reglugerðar er að skýra hvað stjórnskipuð nefnd og starfshópur eru, hver tilgangur og hlutverk þeirra eru, hverjir eiga rétt til setu í þeim og vinnulag.
3. gr. Orðskýringar
3.1. Félagið: Slysavarnafélagið Landsbjörg.
3.2. Félagseining: Björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þegar hefur hlotið aðild að félaginu og hefur eigin kennitölu.
3.3. Fullgildur félagi: er sá sem er skráður í félagatal félagseiningar í gagnagrunni félagsins.
3.4. Stjórn: stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem kosin er á landsþingi félagsins á tveggja ára fresti.
3.5. Stjórnskipuð nefnd: nefnd sem stjórn félagsins skipar í sér til aðstoðar, í tilteknum málaflokki það kjörtímabil sem hún situr.
3.6. Starfshópur: hópur sem stjórn skipar í til að fjalla um ákveðið mál innan ákveðins tímaramma.
4. gr. Nefndarskipan
4.1. Stjórn skal í byrjun hvers kjörtímabils skipa í nefndir og gefa út erindisbréf.
4.2. Nefnd sem skipuð hefur verið um ákveðin málefni skal sitja út yfirstandandi kjörtímabil, það er fram að næsta reglulega landsþingi félagsins, nema annað sé ákveðið.
5. gr. stjórnskipaðar nefndir og hlutverk þeirra
5.1. Stjórnskipaðar nefndir eru stjórn ráðgefandi um þann málaflokk sem heyrir undir hverja nefnd.
5.2. Stjórn félagsins getur falið nefndum verkefni til úrlausnar og einnig geta nefndir komið með tillögur um málefni, áherslur og verkefni til stjórnar að frumkvæði nefndarinnar.
5.3. Stjórn skýrir nánar hlutverk hverrar nefndar fyrir sig út frá þeim áherslum sem hún leggur á það kjörtímabil í erindisbréf hverjar stjórnskipaðrar nefndar.
6. gr. Starfshópar og hlutverk þeirra
6.1. Stjórn er heimilt að skipa starfshópa um ákveðin málefni.
6.2. Starfshópar skulu starfa í fyrirfram ákveðin tíma og skila af sér mótuðum tillögum um verkefni eða afgreiðslu til stjórnar félagsins innan fyrirfram ákveðins tímaramma.
7. gr. Rétt til setu
7.1. Rétt til setu í stjórnskipuðum nefndum og starfshópum eiga allir skráðir fullgildir félagar nema launað starfsfólk félagsins.
7.2. Starfsfólk félagsins eru nefndum og starfshópum til aðstoðar varðandi upplýsingagjöf, boðun og utanumhald funda og skráningu fundargerða.
7.3. Starfsfólk nefnda hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum nefnda og starfshópa en greiða ekki atkvæði um afgreiðslu tillagna eða mála ef að til þess kemur.
8. gr. Trúnaður
8.1. Um setu í nefndum og starfshópum félagsins gilda almennar reglur um trúnað og þagnarskyldu.
8.2. Fulltrúar í nefndum og starfshópum ber að fara með þau atriði sem þeir verða áskynja í störfum sínum, og varða viðkvæmar persónuupplýsingar fólks sem og upplýsingar um málefni félagsins sem leynt skulu fara, sem trúnaðarmál.
8.3. Fulltrúar í nefndum og starfshópum skul fara í einu og öllu eftir Siðareglum félagsins.
8.4. Þagnaskylda helst óbreytt þótt fólk hætti setu í nefnd/starfshóp eða láti af störfum á hennar vegum.
9. gr. Vinnuskipulag
9.1. Nefndir skulu halda fundargerðir og skulu þær vistaðar á skjalasvæði félagsins. Fundargerðir nefnda skulu vera aðgengilegar stjórn og félagsfólki að undanskildum fundargerðum Siðanefndar og Flugeldanefndar á upplýsingasvæði félagsins.
9.2. Í fundargerðum skal koma fram:
9.2.1. hvar og hvenær fundurinn er haldinn
9.2.2. hverjir tóku þátt í fundinum
9.2.3. hvað var tekið fyrir
9.2.4. hvað var ákveðið í þeim málum sem fyrir voru tekin
10. gr. Gildissvið
10.1. Reglugerð þessi gildir um nefndir og starfshópa sem stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar skipar sér til aðstoðar um tiltekin málefni.
10.2. Reglugerðin nær ekki yfir milliþinganefndir sem kosið er í á landsþingi félagsins, Laganefnd, Uppstillinganefnd og Fjárveitinganefnd. Landsstjórn fellur undir aðra reglugerð og um Siðanefnd sem segir til í lögum félagsins hvernig skal í hana skipað og hvert hlutverk hennar er.
10.3. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á fundi stjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar þann 26.11 2021