1. gr. Markmið
1.1. Tilgangur þessarar reglugerðar er að lýsa skyldum félagseininga Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ferlinu sem fer í gang ef félagseining uppfyllir ekki skyldur sínar gagnvart félaginu m.t.t. virkni.
2. gr. Orðskýringar
2.1. Ársreikningur: Fjárhagslegt uppgjör félagseiningar.
2.2. Félagið: Slysavarnafélagið Landsbjörg.
2.3. Félagseining: Björgunarsveit eða slysavarnardeild sem þegar hefur hlotið aðild að félaginu og hefur eigin kennitölu.
2.4. Óvirk félagseining: Félagseining sem uppfyllir ekki skilyrði 3. greinar.
2.5. Tekjuskiptakerfi: Kerfi sem stjórn félagsins notar til þess að úthluta sameiginlegum fjármunum félagsins til félagseininga
2.6. Virk félagseining: Félagseining sem uppfyllir skilyrði 3. greinar.
2.7. Viðeigandi aðilar: Opinberir aðilar í umdæmi einingarinnar, s.s. lögregla og sveitarstjórn.
2.8. Þjónusta félagsins: Sú þjónusta sem skrifstofa félagsins veitir á hverjum tíma s.s. fjárhagslegur stuðningur, póstlistar, félagatal, útsending smáskilaboða, bréf til félagseininga vegna landsþings og annarra funda, erindrekstur og sú fjölþætta þjónusta sem starfsfólk veitir félagseiningum.
3. gr. Virkar félagseiningar
3.1. Félagseining telst vera virk uppfylli hún kröfur greinar þessarar um skil ársreiknings og starfsskýrslu. Á hún þá rétt á að nýta sér þá þjónustu félagsins sem í boði er hverju sinni.
3.2. Félagseining skal skila félaginu ársskýrslu og ársreikningi, árituðum af stjórn viðkomandi einingar og félagskjörnum skoðunarmönnum. Heimilt er að skila ársreikningi með rafrænum hætti.
3.3. Ársreikningar félagseininga skulu vera í samræmi við útgefna fyrirmynd félagsins að ársreikningum.
3.4. Félagseining skal í kjölfar samþykktar ársreiknings skila honum ásamt starfsskýrslu til skrifstofu félagsins svo skjótt sem auðið er, þó eigi síðar en 14 dögum frá samþykkt hans.
3.5. Hafi félagseining ekki uppfyllt skilyrði greinar 3.2 það ár sem landsþing félagsins er haldið skal hún skila skrifstofu félagsins ársreikningi félagseiningar eigi síðar en 4 vikum fyrir landsþing. Í þeim tilvikum sem reikningsári hefur ekki verið lokað skal ársreikningi fyrir reikningsárið þar á undan skilað.
3.6. Hafi félagseining ekki uppfyllt skilyrði greinar 3.2 fyrir fulltrúaráðsfund skal hún skila skrifstofu félagsins ársreikningi félagseiningar eigi síðar en 2 vikum fyrir fulltrúaráðsfund. Í þeim tilvikum sem reikningsári hefur ekki verið lokað skal ársreikningi fyrir reikningsárið þar á undan skilað.
4. gr. Tilkynningar og aðvaranir
4.1. Líði lengri tími en ár frá því að starfsskýrsla og ársreikningur voru send félaginu, skal það senda viðkomandi félagseiningu aðvörun. Í aðvörun skal árétta þau réttindi sem félagseiningin nýtur ekki samanber grein 3.
4.2. Líði lengri tími en ár frá því að félagseining fékk aðvörun telst félagseiningin óvirk og fær tilkynningu þar um. Jafnframt skal viðeigandi aðilum gert viðvart um stöðu félagseiningarinnar.
4.3. Hafi félagseining ekki uppfyllt skilyrði 3. greinar telst hún óvirk þegar aðvaranir hafa verið sendar og falla þá niður réttindi hennar til að nýta þjónustu félagsins og einnig atkvæðaréttur á landsþingi og fulltrúaráðsfundi félagsins.
4.4. Tilkynningar og aðvaranir skulu vera skriflegar.
5. gr. Óvirk eining
5.1. Hafi félagseining verið óvirk skv. 4.3. í tvö ár og það hefur verið fullreynt að fá félagseininguna til þess að skila inn ársreikning og árskýrslu skal stjórn félagsins leggja það til við næsta landsþing að henni sé vísað úr félaginu, sbr. gr. 7.3. í lögum félagsins.
5.2. Sé félagseiningu vísað úr félaginu er félagseiningunni og hennar félögum óheimilt að starfa undir merkjum félagsins og ber að fjarlægja merkingar af húsnæði, tækjum og búnaði félagseiningarinnar.
6. gr. Biðreikningar
6.1. Tekjum sem úthlutað er til félagseininga samkvæmt tekjuskiptakerfinu skal geyma á biðreikningi félagsins í 4 ár eftir að honum hefur verið úthlutað.
6.2. Félagseiningum er tilkynnt skriflega um afskrift fjármuna þeirra 6 mánuðum áður en til afskriftar kemur.
6.3. Kjósi félagseining að nýta sér ekki þá fjármuni sem þeim var úthlutað samkvæmt tekjuskiptakerfinu innan fjögurra ára er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa þeim í önnur verkefni..
7. gr. Að öðlast aftur virkni
7.1. Til að öðlast virkni á ný skal félagseining senda félaginu tilkynningu um að hún hafi tekið til starfa á ný.
7.2. Félagseining öðlast virkni á ný gagnvart félaginu með því að skila ársreikningi og starfsskýrslu að liðnu ári frá tilkynningu samanber grein 3.1.
8. gr. Gildistaka
8.1. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á stjórnarfundi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hinn 7. apríl 2020