„Áhuginn á slysavörnum virðist bara í kvenlegg fjöl- skyldunnar því þrátt fyrir að við systurnar höfum verið í þessu af lífi og sál koma bræður okkar ekki nálægt þessu. Eru ekki einu sinni í björgunarsveit. Mamma er auðvitað fyrirmyndin en hún starfaði í slysavarna- deildinni Hraunprýði í Hafnarfirði. Ég man alltaf þegar hún setti upp slysavarnaslæðuna, í minning- unni var það svolítil athöfn. En mamma hugsaði um öryggi pabba sem var sjómaður. Konurnar störfuðu að slysavörnum sjómanna, voru í Slysavarnafélaginu. Þetta starf heillaði mig.“
Athöfn að setja upp slysavarnaslæðuna
Í æðum Kristbjargar Gunnbjörnsdóttur rennur slysavarnablóð. Hún er formaður slysvarnadeildarinnar Dagbjargar á Suðurnesjum og þar starfar systir hennar einnig. Önnur systir hennar var í slysavarnadeild í Hafnarfirði og þar starfaði móðir þeirra systra lengi vel.
„Við verðum að laga okkar eigið nærumhverfi”
Viljum auka öryggi í nærumhverfinu
„Ég tók þátt í því árið 2004 að stofna deildina hér á Suðurnesjum en hún var upphaflega staðsett í Njarðvík. Til að byrja með snerist starfið mikið um að styðja við björgunarsveitina, safna fé, sjá um mat í útköllum en svo fórum við meira að sinna slysavarnaverkefnum. Eitt af því sem við höfum horft til eru slysavarnir tengdar ferðamönnum.
Í sumar fórum við til dæmis á nokkra vinsæla ferðamannastaði hér í nágrenninu. Heimsóttum Skessuhellinn, fórum út í Garð, að brúnni milli heimsálfa, að Valahnjúk og að Brimkatli. Á þessum stöðum skoðuðum við svæðin og skráðum niður ef það var eitthvað á stöðunum sem gat valdið slysum.“
Málefnið er greinilega hugleikið Kristbjörgu og hún heldur áfram með miklum áhuga. „Við sáum til dæmis
að við Skessuhellinn er enginn björgunarhringur þrátt fyrir að það sé nokkuð um að börn og fullorðnir fari út á varnargarð sem þar er. Við Valahnjúk var okkur hreinlega brugðið. Það var illa merkt og nokkuð um sig í landinu og því margir staðir sem voru hættulegir. Eftir þessar heimsóknir útbjuggum við greinargerð og sendum á hluteigandi aðila.“
„Við höfum einnig tekið þátt í árlegum Safetraveldegi en þá stöndum við félagar slysavarnadeilda og björgunarsveita á tuga fjölfarinna staða, hittum á ökumenn, afhendum þeim fræðsluefni og ræðum við þá um öryggi í umferðinni. Okkur er alltaf óskaplega vel tekið.“
Kristbjörg segir að ferðamennirnir séu svolítið eins og sjómenn áður. Áður var nokkuð um slys hjá sjómönnum og átak var gert í þeim málum. Nú þarf að horfa til þessarar atvinnugreinar og skoða hvar má gera betur, lagfæra svæði og hættur sem þar má finna. „Um leið erum við að auka öryggi okkar Íslendinga því við erum á þessum sömu stöðum. Við erum að lagfæra okkar eigið nærumhverfi.“
„Ferðamennirnir eru svolítið eins og sjómennirnir áður.“
Eldri borgarar orðnir hálfgerðir unglingar
„Í fjölda ára heimsóttum við eldri borgara. Fórum með þeim yfir hættur á heimilum en verkefnið var fyrst og fremst hugsað til þess að vekja þá til umhugsunar um hvar væru slysahættur á heimilum. Slys á heimilum eru alltof algeng hér á landi. Þetta gekk afar vel fyrstu árin en á síðustu árum hefur þetta breyst. Fólk á þessum aldri er orðið hálfgerðir unglingar. Við höfum einnig verið með könnun á bílstólanotkun við leikskóla, skoðað hlutfall þeirra sem nota bílbelti, haldið hjóladaga við grunnskóla og horft þannig til öryggis skólabarna á reiðhjólum. Verk- efnin og hugmyndirnar skortir ekki hjá okkur í slysavarnadeildunum. En okkur vantar fleiri félaga til starfa. Við sáum reyndar á síðasta stóra sameiginlegum viðburði deildanna að það eru margir nýir en okkur vantar fleiri og yngri til starfa. Þetta er ekki lengur þannig að við séum að baka eða elda mat fyrir björgunarsveitarfólk. Við erum að vinna verkefni fyrir samfélagið. Við erum að auka öryggi barnanna, okkar sjálfra og annarra í nærumhverfinu.“
Orkan sem leystist úr læðingi er ógleymanleg
„Starf í þessum félagsskap gefur manni mikið. Ég vil gefa eitthvað til samfélagsins og mér er minnisstæð leitin að Birnu Brjánsdóttur en þar komum við félagar slysavarnadeilda inn til aðstoðar. Þar fann maður þennan samhug, þessa orku sem leystist úr læðingi þegar við stöndum öll saman, félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þetta er ótrúlegur kraftur. Það er hreinlega yndislegt hvað við fáum mikið út úr því að gefa af okkur, bæði í slysavörnum og björgunarsveitarstarfi.“
„Ég undrast það alltaf jafnmikið en um leið kemur það aldrei neitt á óvart hvað félagar slysavarnadeilda eru tilbúnir að leggja á sig þegar á þarf að halda. Öll þessi verkefni sem tengjast börnum, eldri borgurum, ferðamönnum, okkur sjálfum og okkar umhverfi eru leyst með gleði og bros á vör. Félagsskapurinn er stórkostlegur og samkenndin er einstök. Þetta er mannbætandi.“
Takk fyrir að lesa söguna
- StaðsetningReykjanesbær
- Dagsetning11.11.2018
- LjósmyndirSigurður Ólafur Sigurðsson
- TextiHöfundur