Starfið á hug minn allan

Austurland
Adam Eiður ásamt eiginkonu sinni, Ingibjörgu.
Adam Eiður ásamt eiginkonu sinni, Ingibjörgu.

Adam Eiður Óttarrsson er formaður björgunarsveitarinnar Jökuls á Jökuldal.

Hann kemur úr Hafnarfirði en fór í sveit fyrir austan sem unglingur, endaði á því að setjast þar að og vill hvergi annars staðar vera. Honum var kippt með í útkall eitt sinn og í bílnum á leiðinni skráði hann sig í björgunarsveitina. Síðan eru liðin þónokkur ár og björgunarsveitastarfið er stór og mikilvægur hluti af lífinu.

Allir tengdir björgunarsveitinni á einhvern hátt

„Það var í september 2011 sem snjóaði ofboðslega mikið og allt fór á kaf hjá Þeistareykjum og á svæðinu fyrir ofan Húsavík. Línur voru brotnar og fullt af kindum hafði fennt í kaf. Þá fékk ég símtal og var spurður hvort ég gæti slegist í för með björgunarsveitinni sem var á leið þangað að reyna að bjarga kindunum úr þessum hremmingum. Ég hafði fylgst með björgunarsveitinni áður og nefnt það við nokkra af strákunum að ég hefði áhuga á ganga í sveitina svo ég dreif mig af stað með þeim. Á leiðinni frá Jökuldal til Húsavíkur var ég svo skráður í björgunarsveitina Jökul. Þannig byrjaði þetta og hefur síðan átt hug manns allan. Í dag er ég formaður, konan mín er líka í björgunarsveitinni, mágur minn er í stjórninni og sömuleiðis frændi þeirra. Í litlu samfélagi eins og okkar eru flestir tengdir björgunarsveitinni á einn eða annan hátt því fjölskyldurnar verði hluti af þessu öllu líka. Hér eru skólafélagar, nágrannar, fjölskyldumeðlimir, æskuvinir og kunningjar allir komnir saman.

Við hjónin eigum tvo drengi og sá eldri er strax farinn að tala um að verða björgunarsveitamaður. Konan mín fór síðast í útkall í gær og þá sést svo greinilega hvað yngri heimilismeðlimirnir horfa á með stjörnur í augunum þegar það er verið að græja sig og fara í gallann.“

Öll störf jafn mikilvæg

Í björgunarsveitinni Jökli eru um 90 skráðir félagar. Adam segir fólk vera misvirkt eins og gengur og gerist, sumir taki sér hlé eða komi lítið um tíma vegna annarra anna en mæti svo af meiri krafti á öðrum tímabilum. Um 10-15 manna kjarni er í björgunarsveitinni sem sinnir langflestum útköllum en þar með er ekki öll sagan sögð því fjölmargir félagar skipuleggja og taka þátt í ýmiss konar fjáröflunum og öðrum verkefnum björgunarsveitarinnar. Adam segir þá vinnu vera alveg jafn mikilvæga og að fara í útköllin sjálf enda geti lítið gerst ef ekki eru til peningar fyrir hlutunum.


„Við í björgunarsveitinni Jökli hættum flugeldasölu í fjáröflunarskyni fyrir nokkrum árum og þá skiptir allur annar stuðningur og fjáraflanir okkur enn meira máli. Við reiðum okkur gífurlega mikið á Bakverði. Auðvitað langar okkur alltaf til að fleiri bætist í hópinn og styðji okkur því til að geta gert allt eins vel og við myndum helst vilja, þá þyrftum við enn meiri stuðning. En við spilum með það sem við höfum og erum Bakvörðunum okkar mjög þakklát. Sjálf stöndum við líka fyrir ýmiss konar fjáröflun og allar þessar vinnustundir eru í sjálfboðavinnu. Íslendingar þekkja starf björgunarsveitanna en þetta kemur erlendu ferðafólki sem við aðstoðum alltaf jafn mikið á óvart – að allt sé þetta gert í sjálfboðavinnu.

Sjálfboðastarfið er ekki bara að mennta sig og viðhalda menntun til að við getum sinnt og farið í útköll heldur þurfum við líka að fara í fleiri fjáröflunarverkefni. Það getur verið svolítið púsluspil þegar við erum beðin um að taka að okkur einhver verkefni sem hjálpa okkur í fjáröfluninni að þau eru oftar en ekki á vinnutíma og langflest okkar eru í hefðbundinni dagvinnu. Við erum heppin að hafa marga bændur í okkar röðum sem geta stokkið inn þau verkefni þar sem vinnutími þeirra er oft annar. En svo hefur fólk líka tekið sér launalaust leyfi eða notað hluta af sumarfríinu sínu.“

    Liðsmenn Jökuls fara sínar eigin leiðir á vali á fararskjótum.

Enginn á að fara heim með erfiðar tilfinningar

Fjöldi ferðamanna á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt, svo til óháð árstíma. Þessi aukni fjöldi hefur vitaskuld fært björgunarsveitum landsins aukið álag og segir Adam það sérstaklega eiga við um fámennar sveitir sem þjóna stórum svæðum á landinu.


„Svæðið okkar nær frá Egilsstöðum upp í Kárahnjúka, yfir í Möðrudal og út í Hellisheiði. Á þessu svæði er Hárekstaðaleið sem er hæsti og lengsti fjallvegurinn á þjóðveginum. Á þessum slóðum þarf oft ekki mikið til að komið sé aftakaveður. Bara að kólna um nokkrar gráður og fara aðeins að blása og mjög vont veður getur skollið á með litlum fyrirvara. Björgunarsveitirnar Hérað á Egilsstöðum, Vopni í Vopnafirði og Stefán á Mývatni eru svo nærliggjandi björgunarsveitir og þeirra svæði liggja að okkar. Við vinnum mikið með þeim.“

Með erfiðari útköllum sem ég hef farið í

„Fyrir utan þetta víðáttumikla svæði eru fjölsóttir staðir í næsta nágrenni við okkur, eins og Stuðlagil en þar höfum við fundið mjög mikið fyrir auknum ferðamannafjölda. Við höfðum lengi verið uggandi yfir því að þar gæti orðið slys og svo gerðist það því miður síðasta haust að þar varð banaslys. Það er með erfiðari útköllum sem ég hef farið í. Þær aðstæður eru alltaf erfiðar, sérstaklega þegar þú veist að það er í raun engu að bjarga nema því að fjölskyldan geti jarðað ástvin sinn. Það er alltaf erfitt og við höfum talað mikið um það við okkar fólk að eftir útköll eins og þessi megum við ekki liggja á okkar skoðunum eða líðan eða fara með einhverjar erfiðar tilfinningar í bakpokanum okkar heim. Við gerum mikið af því að kalla fólk saman eftir svona útköll en líka þau sem hafa af einhverjum ástæðum tekið á. Það skiptir gríðarlega miklu máli að burðast ekki með eitthvað svona innra með sér.“

    Veðurguðirnir taka upp á ýmsu fyrir austan.

Þakklætið er eldsneytið

Sá tími sem sjálfboðaliðar björgunarsveitanna verja í útköll, undirbúning, fjáröflun og starfið allt getur verið mikill. Það er því mikið á sig lagt, en hver telur Adam vera aðalástæðuna fyrir því að fólk er til í þetta allt saman?


„Ég held að þakklætið sé svolítið eldsneytið okkar. Við viljum öll láta gott af okkur leiða. Ég vil meina að sú þörf búi innra með öllu fólki. Ég man alltaf þegar ég var í neyðarkallasölunni í nóvember síðastliðnum. Við vorum í Nettó á Egilsstöðum og þá kemur til mín kona sem kaupir neyðarkall og spyr mig svo einfaldlega hvort hún megi faðma mig. Ég varð bara meyr. Þá höfðum við og björgunarsveitin í kring bjargað bróður hennar fyrir nokkrum árum. Hún er ekki einu sinni af svæðinu og þarna sá hún mig standa í neyðarkallasölunni og segir okkur frá þessu. Þetta er þakklætið sem drífur mann áfram.“


Og á þeim nótum endar Adam spjallið en beinir nú skilaboðum sínum til Bakvarða.
„Bara – takk! Ég held að það sé bara orðið. Ég held að við öll sem erum að standa í þessu erum ofboðslega þakklát fyrir stuðninginn í Bakvörðum. Það er alveg ljóst að án þeirra þá væri björgunarsveitirnar ekki eins öflugar og þær eru.“

    Fjölskyldumeðlimir, börn sem fullorðnir, merktir í bak og fyrir.

Takk fyrir að lesa söguna

Starfið á hug minn allan
Adam Eiður ásamt eiginkonu sinni, Ingibjörgu.
N65° 9' 53" W-15° 18' 26"

Starfið á hug minn allan

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla