Brosið sem þú tekur með þér heim

Suðurnes

Tómas Logi Hallgrímsson bjóst ekki við því að Facebook-færsla sem hann skrifaði rétt fyrir jól myndi fara á rækilegt flug en svo til allir vefmiðlar landsins vöktu athygli á færslunni og henni var deilt yfir þúsund sinnum. Tómas Logi var í hópi ótal björgunarsveitafólks sem varði síðustu dögunum fyrir hátíðarnar í að bregðast við óveðri sem skall á landinu.

„Sumir fara á sjóinn eins og pabbi sinn. Ég fór í björgunarsveitina eins og mamma,“ útskýrir Tómas sem kemur frá Grundarfirði og var ungur byrjaður að taka þátt í björgunarsveitastarfi á svæðinu, fyrst í Grundarfirði og svo á Hellissandi. Hann segir áherslurnar mismunandi eftir því hvar sveitirnar eru staðsettar á landinu en fyrir vestan hafi eðli málsins samkvæmt mest áhersla verið lögð á sjóbjörgun. Tómas er nú í björgunarsveitinni Suðurnes í Reykjanesbæ þar sem hann segir áherslurnar dreifast á fjölbreytt verkefni, auk þess sem Keflavíkurflugvöllur er á þeirra svæði.

Björgunarsveitir landsins stóðu í ströngu í óveðursverkefnum helgina fyrir jól og þegar Tómas skrifaði færsluna var hann nýkominn heim eftir að hafa staðið vaktina í meira en 50 klukkustundir á tæpum fjórum sólarhringum. Þetta var ein stærsta björgunaraðgerð sem hann hefur tekið þátt í á sínum 18 ára ferli í björgunarsveitum. Verkefnin voru ótalmörg, allt frá því að moka og draga upp fasta bíla, bjarga fólki inn úr óveðri og koma heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu. Plön um samverustundir fjölskyldunnar síðustu daga fyrir jólin urðu að engu sem Tómas segir eitt af mörgum dæmum um þær fórnir sem sjálfboðaliðar björgunarsveitanna færa. „Við ætluðum til dæmis að hafa kakó og piparkökustund með krökkunum og svo þetta klassíska að horfa á jólamynd með konunni en það varð ekkert úr því“ . Það sem bjargaði því að jólin fóru ekki alveg á hliðina hjá okkur var að við vorum svo heppin að undirbúningurinn var í lágmarki þetta árið því við vorum búin að ákveða að verja jólunum á Spáni. En það breytti því ekki að það er alltaf erfitt að fara frá þeim og út í kolvitlaust veður.

„Maður hugsar alltaf númer 1, 2 og 3 að það sé allt í góðu heima.“

Flest gerum við okkur grein fyrir því að það að vera sjálfboðaliði í björgunarsveit krefst heilmikillar ósérhlífni og fórnfýsi. Þegar okkur er ráðlagt að halda okkur heima eru það þau sem fara út. Tómas bendir þó á að það séu ekki síður fjölskyldur björgunarsveitafólks sem þurfi að færa fórnir. „Þetta er staðreynd sem kannski er lítið talað um. Þetta eru ekki bara við að stökkva út í brjálað veður. Fyrir okkur líður tíminn hratt en það er makinn sem er heima með börnin og þarf að svara spurningunni: „Hvar er pabbi?“ og sefa áhyggjur. Skilningur fjölskyldu og maka skiptir okkur ótrúlega miklu máli, sem og skilningur og stuðningur vinnuveitenda. Ég er rafvirki og þurfti ekki einu sinni að láta yfirmanninn vita að ég kæmi ekki til vinnu því hann sá bara að ég var í útkalli. Mér var sérstaklega tilkynnt um það í vinnunni að ég héldi mínum launum þó ég færi í útköll og að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af því. Slíkt viðmót er auðvitað ómetanlegt og ég vona að það eigi við um sem flest björgunarsveitafólk.“

Þegar pirringurinn nær yfirhöndinni

Eitt af því sem Tómas nefndi í Facebook-færslunni víðförlu var viðmót fólksins sem hann og félagar hans voru í samskiptum við í óveðri og ófærð. Langflestir hafi verið skilningsríkir og samvinnuþýðir. Þó séu alltaf einhverjir sem leyfi pirringnum að ná yfirhöndinni og þá verði allt miklu erfiðara.
„Ófærð er erfið og hún er leiðinleg en það batnar ekkert við að fólk leyfi sér að nota einhvern fúkyrðaflaum, argast í okkur eða pirrast. Fólk er auðvitað bara að hugsa um sjálft sig og sínar þarfir og getur ef til vill ekki á þessum tímapunkti sett sig í okkar spor. Ekki frekar en við í þeirra, ef út í það er farið. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar það er búið að loka vegum á fólk að vera heima hjá sér. Svo einfalt er það. Við sáum dæmi um fólk sem komst ekki á bílnum til vinnu og þá pantaði það bara leigubíl. Sem festi sig að sjálfsögðu því það var jú ófært. Þegar fólk fer af stað inn á lokaðan veg, fer gegn fyrirmælum okkar og veldur því að verkefnin verða miklu, miklu erfiðari. Ég er bara mannlegur og auðvitað verð ég pirraður yfir svona.“

Ég hef líka horft á eftir bílstjóra sem hreytti í mig að ég hefði ekkert vit á þessu og óð svo bara áfram á Subarunum sínum og festi sig. Að sjálfsögðu.“

„Þegar þú ert búinn að vera vakandi og úti í meira en 18 tíma þá er þolinmæðin stundum á þrotum. Við erum bara manneskjur en við erum að sjálfsögðu að gera okkar besta.“
Engu að síður segir Tómas að verkefnin séu í langflestum tilfellum gefandi og þakklæti og jákvæðni séu það sem yfirleitt sitji eftir að loknum löngum törnum. Hann segir samheldni björgunarsveitafólks í þessum aðgerðum líka vera sér ofarlega í huga en allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu stóðu þétt saman í þeim tilgangi að bjarga fólki og aðstoða. Sú sé raunin í öllum þeim aðgerðum sem björgunarsveitirnar haldi út í þegar á þarf að halda.
„Við gerum þetta allt í þágu fólksins í landinu og þess vegna skiptir það okkur miklu máli að finna stuðninginn frá almenningi. Góður búnaður gerir okkar störf auðveldari og betri tækjabúnaður björgunarsveita getur skipt sköpum í erfiðum útköllum. Við þurfum að vera í góðum og hlýjum fatnaði, koma okkur á milli landshluta til að sækja regluleg námskeið og margt, margt fleira sem getur orðið kostnaðarsamt fyrir okkur persónulega. Það hjálpar allt og almenningur getur lagt sitt af mörkum, til dæmis með því að vera Bakvörður og með því að styðja við björgunarsveitir í sínu nærumhverfi. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta allt gert fyrir fólkið í landinu.“

Tómas segir að sig hafa ekki órað fyrir hvernig útkall á laugardagsmorgni kl. 10:46 rétt fyrir jól ætti eftir að vinda upp á sig og þetta hafi verið ein sú stærsta ef ekki stærsta aðgerð björgunarsveita sem hann hafi tekið þátt í. „Þegar ég lít til baka á þessa daga fyrir jólin þá hugsa ég meðal annars um eitt atvik þar sem ég veit að við björguðum mannslífi. Við vorum að losa bíl þegar við heyrðum einhver óhljóð útundan okkur. Þá sá félagi minn allt í einu hönd og þá lá kona á kafi í snjó, liggjandi á jörðinni, grátandi og ísköld. Hún hafði ætlað að ganga heim úr vinnu og upp í Ásbrú. Þarna björguðum við mannslífi, svo einfalt er það. Við aðstoðuðum líka sjúkrabíla við að komast leiðar sinnar og eitt verkefnið okkar var að sækja lítinn snáða sem var lasinn og þurfti að komast á spítala. Persónulega gefur það mér mjög mikið að fá að upplifa þakklætið sem við fáum frá yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem við eigum í samskiptum við. Þess vegna er ég björgunarsveitamaður. Eitt lítið takk eða bros. Það er það sem ég tek með mér heim.“

Takk fyrir að lesa söguna

Brosið sem þú tekur með þér heim

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum