Tómas Logi Hallgrímsson bjóst ekki við því að Facebook-færsla sem hann skrifaði rétt fyrir jól myndi fara á rækilegt flug en svo til allir vefmiðlar landsins vöktu athygli á færslunni og henni var deilt yfir þúsund sinnum. Tómas Logi var í hópi ótal björgunarsveitafólks sem varði síðustu dögunum fyrir hátíðarnar í að bregðast við óveðri sem skall á landinu.
„Sumir fara á sjóinn eins og pabbi sinn. Ég fór í björgunarsveitina eins og mamma,“ útskýrir Tómas sem kemur frá Grundarfirði og var ungur byrjaður að taka þátt í björgunarsveitastarfi á svæðinu, fyrst í Grundarfirði og svo á Hellissandi. Hann segir áherslurnar mismunandi eftir því hvar sveitirnar eru staðsettar á landinu en fyrir vestan hafi eðli málsins samkvæmt mest áhersla verið lögð á sjóbjörgun. Tómas er nú í björgunarsveitinni Suðurnes í Reykjanesbæ þar sem hann segir áherslurnar dreifast á fjölbreytt verkefni, auk þess sem Keflavíkurflugvöllur er á þeirra svæði.
Björgunarsveitir landsins stóðu í ströngu í óveðursverkefnum helgina fyrir jól og þegar Tómas skrifaði færsluna var hann nýkominn heim eftir að hafa staðið vaktina í meira en 50 klukkustundir á tæpum fjórum sólarhringum. Þetta var ein stærsta björgunaraðgerð sem hann hefur tekið þátt í á sínum 18 ára ferli í björgunarsveitum. Verkefnin voru ótalmörg, allt frá því að moka og draga upp fasta bíla, bjarga fólki inn úr óveðri og koma heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu. Plön um samverustundir fjölskyldunnar síðustu daga fyrir jólin urðu að engu sem Tómas segir eitt af mörgum dæmum um þær fórnir sem sjálfboðaliðar björgunarsveitanna færa. „Við ætluðum til dæmis að hafa kakó og piparkökustund með krökkunum og svo þetta klassíska að horfa á jólamynd með konunni en það varð ekkert úr því“ . Það sem bjargaði því að jólin fóru ekki alveg á hliðina hjá okkur var að við vorum svo heppin að undirbúningurinn var í lágmarki þetta árið því við vorum búin að ákveða að verja jólunum á Spáni. En það breytti því ekki að það er alltaf erfitt að fara frá þeim og út í kolvitlaust veður.