Líklega er fátt sem gleður meira á rúntinum um ólgusjó internetsins en myndir af kátum hundum. Einn slíkur fangaði athygli okkar á dögunum en það var tíkin Mýsla sem kúrði sig ofan í bakpoka bjargvættar síns sem hafði komið henni til aðstoðar á ögurstundu. Sá heitir Hafliði Hinriksson og er meðlimur í Björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað. Ferill hans í björgunarsveit spannar meira en 25 ár en síðustu ár hefur hann sérhæft sig í sjó- og fjallabjörgun, nokkuð sem sífellt meiri þörf er á í þessum landshluta.
Hafliði er Reyðfirðingur að uppruna en hefur búið í Neskaupstað í rúman áratug. Hann er vélstjóri og rafvirki en starfar nú sem kennari í Verkmenntaskóla Austurlands. „Ég byrjaði í unglingastarfinu þegar ég var 14 ára gamall. Það var ekki af neinni sérstakri ástæðu en mér fannst þetta spennandi og þetta er lítill staður og nokkuð margir sem taka þátt í þessu. Þeir sem voru í björgunarsveitunum voru líka ákveðnar fyrirmyndir fyrir okkur og nú er ég búinn að vera meira og minna í þessu allar götur síðan. Í seinni tíð hef ég einbeitt mér að sjóbjörgun og fjallabjörgun en á þessu svæði höfum við séð mikla aukningu í slíkum verkefnum á undanförnum árum. Við höfum náð að byggja okkur upp á þessum sviðum sem er gott. Ég held kynningar um fjallabjörgun fyrir unglingastarfið og hef verið að kenna björgunarsveitafólki fjallabjörgun. Sjálfur hef ég ekkert rosalega gaman af því að vera að klifra og vesenast en það er þessi tæknilegi þáttur sem mér finnst mest spennandi. Það sem höfðar samt hvað mest til mín og er líklega ástæðan fyrir því að ég er enn jafn virkur í björgunarsveitastarfinu er þetta með að geta verið einhver sem kemur til hjálpar.“