EF VIÐ LENDUM Í VESENI ER ENGUM BJARGAÐ

Austurland

Líklega er fátt sem gleður meira á rúntinum um ólgusjó internetsins en myndir af kátum hundum. Einn slíkur fangaði athygli okkar á dögunum en það var tíkin Mýsla sem kúrði sig ofan í bakpoka bjargvættar síns sem hafði komið henni til aðstoðar á ögurstundu. Sá heitir Hafliði Hinriksson og er meðlimur í Björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað. Ferill hans í björgunarsveit spannar meira en 25 ár en síðustu ár hefur hann sérhæft sig í sjó- og fjallabjörgun, nokkuð sem sífellt meiri þörf er á í þessum landshluta.

Hafliði er Reyðfirðingur að uppruna en hefur búið í Neskaupstað í rúman áratug. Hann er vélstjóri og rafvirki en starfar nú sem kennari í Verkmenntaskóla Austurlands. „Ég byrjaði í unglingastarfinu þegar ég var 14 ára gamall. Það var ekki af neinni sérstakri ástæðu en mér fannst þetta spennandi og þetta er lítill staður og nokkuð margir sem taka þátt í þessu. Þeir sem voru í björgunarsveitunum voru líka ákveðnar fyrirmyndir fyrir okkur og nú er ég búinn að vera meira og minna í þessu allar götur síðan. Í seinni tíð hef ég einbeitt mér að sjóbjörgun og fjallabjörgun en á þessu svæði höfum við séð mikla aukningu í slíkum verkefnum á undanförnum árum. Við höfum náð að byggja okkur upp á þessum sviðum sem er gott. Ég held kynningar um fjallabjörgun fyrir unglingastarfið og hef verið að kenna björgunarsveitafólki fjallabjörgun. Sjálfur hef ég ekkert rosalega gaman af því að vera að klifra og vesenast en það er þessi tæknilegi þáttur sem mér finnst mest spennandi. Það sem höfðar samt hvað mest til mín og er líklega ástæðan fyrir því að ég er enn jafn virkur í björgunarsveitastarfinu er þetta með að geta verið einhver sem kemur til hjálpar.“

„Ég lendi ekki oft í dýrabjörgun enda er hún frekar fátíð en það kemur þó fyrir,“

„Ég lendi ekki oft í dýrabjörgun enda er hún frekar fátíð en það kemur þó fyrir,“ útskýrir Hafliði sem ásamt góðum hópi björgunarsveitafólks kom Mýslu til hjálpar eins og áður segir. Það var á fallegum sunnudegi í júlí sem Mýsla og eigandi hennar voru á ferð um Einstakafjall á mörkum Viðfjarðar og Vaðlavíkur. Það var þá sem björgunarsveitin Gerpir fékk aðstoðarbeiðni því þau höfðu lent í sjálfheldu en fljótlega eftir að beiðnin barst hafði maðurinn komið sér sjálfur niður. Mýsla hafði hins vegar hlaupið lengra, horfið niður fyrir klettabrún og gat sig hvergi hreyft. Sjálfboðaliðar úr björgunarsveitunum Gerpi, Brimrúnu og Ársól mættu á staðinn innan tíðar þar sem Hafliði seig niður brúnina um 70 metra til Mýslu áður en þau voru bæði hífð upp aftur. Hann segir þau sem eru í vanda stödd jafnan vera afar þakklát þegar hann nái til þeirra. „Samt eru líklega færri sem sýna þakklætið jafn innilega og hundurinn,“ bætir hann við.

Að koma að fólki í neyð í fjallabjörgun hlýtur að vera erfitt á stundum en aðspurður segir Hafliði að slíkt sé einfaldlega verkefni sem þurfi að sinna og leysa á giftusamlegan hátt.
„Því miður er það þannig að oft erum við að sækja látið fólk í þessum aðstæðum. Þá þurfum við að koma þessum einstaklingi til byggða svo fólkið hans geti kvatt hann og þá gírum við okkur bara upp í það verkefni. Við höfðum ekki verið að vinna kerfisbundið með sálræna þáttinn í þessu öllu en félagið býður upp á aðstoð frá sálfræðingum og fagfólki og við erum líka mjög dugleg að ræða málin okkar á milli eftir erfið útköll. Það er lykilatriði ef við ætlum að vera í þessu áfram. Á sama hátt erum við dugleg að fylgjast hvert með öðru og koma auga á ef einhverjum líður ekki vel.“

Hafliði segir hundabjörgunina frá því í sumar líklega vera það útkall sem standi upp úr hjá honum þessa dagana. „Þetta var öðruvísi og krefjandi verkefni og þannig séð flókið en með þeirri þjálfun og reynslu sem hópurinn sem kom að þessu býr yfir gátum við leyst þetta á öruggan hátt. Í þetta útkall fóru í kringum 15 manns en til að framkvæma fjallabjörgun á öruggan hátt þarf að minnsta kosti 6-8 manns. Þá skiptir ekki endilega öllu hvort um er að ræða manneskju eða dýr því við þurfum fyrst og fremst að gæta að okkar eigin öryggi, svo getum við farið að hjálpa. Ef við lendum í veseni þá er engum bjargað.“

Björgunarsveitafólk vinnur oft við erfiðar og krefjandi aðstæður, oftar en ekki úr alfaraleið og í öllum veðrum. Til að öryggi þeirra og skilvirkni björgunaraðgerðarinnar sé tryggt þurfa þau reglulega þjálfun og góðan og réttan búnað. Björgunarsveitir hér á landi eru byggðar upp af sjálfboðaliðum og þrátt fyrir að slíkt þekkist annars staðar í heiminum er það óvíða jafn umfangsmikið starf og hér á landi. Mánaðarlegur stuðningur Bakvarða skiptir því sköpum þegar kemur að því að starfrækja björgunarsveitirnar hér á landi eins og Hafliði bendir á.
„Við gætum þetta ekkert öðruvísi. Bara það að græja sig upp til að vera klár í fjallabjörgun kostar tugi þúsunda. Belti, hjálmur, þjálfunin og fleira. Oft erum við líka að kaupa búnaðinn okkar sjálf fyrir okkar eigin peninga en við gætum þetta einfaldlega ekki án þess að fólk styðji við okkur,“ segir Hafliði að lokum.

Takk fyrir að lesa söguna

EF VIÐ LENDUM Í VESENI ER ENGUM BJARGAÐ

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum