Sterkari einstaklingar og breiðari hópur
Hluti af breyttri nálgun hópsins við nýliðaþjálfunina fólst í því að taka meira tillit til einkalífs björgunar- sveitarfólks, og gera þannig fleirum kleift að taka þátt. Henni líkaði ekki sú staðalímynd sem var í gangi þegar kom að þjálfun og þátttöku í björgunarsveit. „Þessi ýkta mynd af fólki sem átti að leggja sig allt fram við björgunarsveitarstarfið og leggja nánast allt annað til hliðar. Þú áttir að vera „all in“, þetta átti að vera svona töff. En í grunninn erum við bara fólk, fjölskyldufólk sem eigum vinnu og fjölskyldu og önnur áhugamál líka. Mér fannst mikilvægt að breyta þessum áherslum til að halda fólki hjá okkur, að leyfa fólki að sinna fjölskyldunni sinni. Án fjölskyldunnar geturðu ekki verið í sveitinni, því hún þarf að styrkja þig líka.“
Sara segir að það að minnka áhersluna á að fólk helgi sig sveitinni allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, hafi í raun marga kosti. „Þá kemurðu sterkari einstaklingur inn í sveitina. Það eru svo mörg störf innan sveitarinnar sem við þurfum að sinna, og við viljum fá sem flesta. Við minnkuðum áhersluna á að þú verðir að vera klár alltaf, í það að við ætlum að aðstoða þig á þeim tíma sem þú getur. Þú leggur þig fram, en hefur líka möguleika á að sinna fjölskyldunni og vinnunni.“
Við þessa áherslubreytingu á nýliðastarfinu tók Sara eftir breytingu á því hverjir sóttu í starfið. „Við erum komin með breiðari hóp, miklu blandaðri hóp. Við erum ekki bara með ungt fólk sem er nýkomið í framhaldsskóla, heldur erum við að fá inn fullorðið fólk sem sér loksins fram á að geta eytt tíma í svona starf. Að þurfa ekki að hliðra öllu til í tvö ár til að geta komist í sveitina. Allt þetta fólk, sem er búið að slíta barnsskónum, kemur með ákveðna reynslu til okkar.“
Fyrir Söru eru þessar fjölskylduvænu áherslur síður en svo úr lausu lofti gripnar. „Mitt mottó er að fjölskyldan gengur alltaf fyrir. Ég er komin á þann stað í lífinu að ég er ekki tilbúin til að henda frá mér þriggja ára gamalli dóttur minni til að fara að bjarga einhverjum uppi í fjalli. Ef ég hef kost á því, þá að sjálfsögðu geri ég það, en maður þarf líka að hugsa um sitt eigið öryggi og sína eigin fjölskyldu áður en maður hleypur af stað. Og það gerir þetta svo fallegt, af því að við erum svo mörg. Um leið og það eru fleiri komnir inn í starfið get ég leyft mér að vera heima með dóttur mína af því að ég veit að það hleypur einhver í skarðið fyrir mig. Svo þegar ég get, þá kem ég af fullum krafti,“ segir Sara og bætir við: „Það kemur maður í manns stað. Ég veit ekki til þess að einhver hafi dáið af því að ég mætti ekki.“