Ég er alinn upp hérna á Hornafirði til 19 ára aldurs og gekk strax 14 ára gamall í Unglingadeild Björgunarfélagsins hér. Eiginlega má segja að strax þá hafi þetta verið ráðið. Ég þróaðist áfram í björgunarstarfinu þegar ég flutti í bæinn í nám, gekk í björgunarsveitina Ingólf og síðan í Ársæl. Ég flutti til Danmerkur og bjó þar í 10 ár en þegar ég fluttist aftur heim á Hornafjörð, kviknaði bakterían á ný og ég fór strax að starfa með Björgunarfélaginu og hef verið virkur félagi síðan. Þetta virtist vera ólæknandi baktería og er fyrir mér einfaldlega lífsstíll, sem ég legg mig allan í.
Er munur á því að vera í stórri björgunarsveit í Reykjavík eða í sveit á landsbyggðinni?
Já, ég held að það sé talsverður munur. Aðallega sá, að úti á landi er mun meiri fjölbreytileiki. Hérna erum við ekki með greinileg og afmörkuð sérsvið eins og í bænum, við búum einfaldlega ekki við þann lúxus. Við þurfum að fara í öll þau verkefni og taka alla þá hatta sem þarf hverju sinni, fara í hvaða útkall sem er, sama hvort það er að hoppa í bátinn okkar og út á sjó, rjúka á vélsleða upp á jökul, t.d. í Grímsvötnin eða fara í skyndihjálparverkefni eins og t.d. bílslys á vegunum, sem er algengt. Við vinnum öll almenn björgunarstörf eins og björgunarsveitarfólk á landsbyggðinni þekkir. Eins og allir vita þá erum við í mikilli nálægð við Vatnajökul sjálfan, þetta gríðarstóra og hættulega landflæmi en gott aðgengi er á jökulinn hérna upp
Skálafellsjökulinn sem er á suðausturhorni Vatnajökuls í nálægð við Höfn. Við í björgunarsveitinni gjörþekkjum Vatnajökul og við fáum eiginlega öll útköll sem eru á hann og þau eru algeng. Þannig má segja að Vatnajökull sé nokkurs konar sérsvið okkar. Í þessu samhengi má nefna útkall fyrir skemmstu inn á Síðujökul, vestast á Vatnajökli sem í raun er ágætis leið, en í þessu útkalli þurftum við að fara fyrst inn í Grímsvötn á miðjum Vatnajökli og þaðan niður á Síðujökulinn, sem er alveg 3ja tíma ferð í þetta verkefni og var reyndar til að bjarga illa búnum ferðamanni á strigaskóm, verkefni sem tókst vel. Ég er t.d. ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því að við hérna á Höfn erum sennilega fljótust allra að komast í Kverkfjöll. Héðan frá Höfn er stysta leiðin þangað en það eru ekki nema um 80 kílómetrar að sunnan frá Jöklaseli við Skálafellsjökul þvert yfir Vatnajökulinn í Kverkfjöll en 55 km eru frá Höfn að Jöklaseli.
Við teljum okkur vera með góða alhliða þekkingu og hæfni til ferða á Vatnajökul og að við getum leyst flest verkefni sem koma upp. Við þekkjum okkar leiðir til verkefna þar en vissulega gæti þurft að koma að jöklinum frá mörgum stöðum og staðháttaþekking því mikilvæg en jökullinn er flókinn og bera þarf virðingu fyrir honum. Það er margs að gæta þarna, t.d. leiðarval, vistamál, tímasetn- ingar, fjarskiptamál o.fl.