Á Íslandi eru starfræktar 95 björgunarsveitir og 37 slysavarnadeildir. Ein þeirra er Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi sem var stofnuð árið 1940 og hefur frá þeim tíma sinnt óteljandi útköllum og gegnt öflugu slysavarnastarfi. Ekki eru mörg ár liðin síðan sveitinni áskotnuðust gjafir sem nýttust til kaupa á nauðsynlegum búnaði til björgunarstarfa en að sögn félaga hennar hefur hann skipt sköpum fyrir sveitina.
Reynir Arnórsson gekk til liðs við björgunarsveitina árið 1978. Hann hefur því staðið vaktina sem slysavarnamaður og björgunarsveitarmaður samtals í hvorki meira né minna í 44 ár og hefur ekki tölu á þeim útköllum sem hann hefur sinnt á þeim tíma. Hann segir algjört lykilatriði að björgunarsveitir búi yfir nauðsynlegum búnaði til björgunarstarfa enda geti aðstæður oft verið krefjandi og erfiðar og beinlínis hættulegar. Því hafi það verið sannkölluð himnasending þegar Báru bárust erfðagjafir fyrir nokkrum árum sem nýttar voru til kaupa á björgunartækjum og -tólum og sérstakri bifreið til björgunarstarfa.
„Annar bíllinn sem við notum við störf okkar er breyttur sérstaklega til þess að ferðast í miklum snjó og eða ófærð. Hinn bíllinn nýtist til flutninga á fleiri mönnum þegar svo ber við en hann er einnig notaður sem stjórnstöð. Bílarnir skipta öllu máli til þess að við getum sinnt útköllum á sem bestan hátt því ef til dæmis fólk yfirgefur bifreið sína í vondu veðri þá er mannslíf í húfi.“