Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.
Styrknum verður skipt þannig að 76,5 m. kr. er veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 m. kr. er veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta er gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og báta. Markmiði er efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einning að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðarhættu.
Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Slysavarnafélagið Landsbjörg er eigandi tveggja báta af sömu gerð og hefur reynslan af þeim verið afar góð, sérstaklega er varðar sjóhæfni. Vonir standa til að bátarnir verði afhentir fyrir áramót.