Helst vildi hann búa í sveit enda kann hann best við sig í rólegu samfélagi þar sem allir þekkja alla. Arnar Freyr Guðmundsson er virkur þátttakandi í unglingastarfinu á Sauðárkróki og mælir eindregið með því að ungt fólk taki þátt í virku og lifandi félagsstarfi björgunarsveita.
„Mamma er af Vestfjörðunum og pabbi er Húnvetningur en ég hef alltaf litið á sjálfan mig sem Skagfirðing,“ segir Arnar Freyr en hann hefur lengst af búið á Sauðárkróki eftir stutta viðdvöl á Ísafirði og í Grindavík á yngri árum. Hann er á fyrsta ári í húsasmíðanámi, segist alltaf hafa verið ákveðinn í að fara út í ein- hvers konar iðnnám og kann vel við sig í þeirri grein sem hann leggur nú stund á. „Ég hef alltaf verið mun betri í að vinna með höndunum heldur en að skrifa eða lesa. Pabbi er húsasamiður og afi þúsundþjala- smiður svo þetta er mér svolítið í blóð borið líka.“
Arnari Frey verður seint lýst sem miklum æsingamanni. Best kann hann við sig í rólegu, litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og hefur sömuleiðis alltaf verið hrifinn af hverju því sem tengist lífinu í sveit- um, smalamennsku og fleiru. „Ég er mikill rólyndis dútlari og uni mér vel við að brasa eitthvað í góðra vina hópi. Tónlist er líka stórt áhugamál mitt og þá helst eldri og klassískari heldur en flestir jafnaldrar mínir hlusta kannski á. Ég hlusta mikið á íslensk dægurlög og Raggi Bjarna og Björgvin Halldórsson eru einna helst í uppáhaldi hjá mér enda miklir snillingar. Sjálfur hef ég verið í tónlistarnámi í mörg ár og spila á harmoniku og píanó. Ég gæti vel hugsað mér að spila á alvöru sveitaballi þó svo að ég hafi enn ekki gerst svo frægur að fara á eitt slíkt. En mér finnst gaman að halda uppi stuðinu með góðum hópi fólks.“
Að kynnast og deila þekkingu
Félagslífið sem skapast í kringum unglingastarfið er öflugt og skemmtilegt. Arnar Freyr segir þar bera einna hæst þegar unglingar víðs vegar af landinu koma saman og deila með sér þekkingu og reynslu. „Um daginn fengum við Siglfirðingana í heimsókn. Þeir leggja áherslu á fjalla- björgun enda snjóflóð raunveruleg hætta sem þeir þurfa að fást við svo við lærðum heilmikið af þeim um þau mál. Svona hittingar og fleiri viðburðir á landsvísu eru mjög mikilvægir. Þú lærir að þekkja fleiri björgunarsveitir og fólkið í þeim, fólk sem þú átt mjög líklega eftir að hitta aftur og vinna með í útköllum einhvern tímann seinna. Að koma saman, hafa gaman og deila reynslu er mjög stór hluti af því að vera í unglingadeild eða björgunarsveit. Sjálfur er ég mikill áhugamaður um sjávar- og vatnabjörg- un og myndi gjarna vilja sérhæfa mig í því í framtíðinni. Pabbi er sjómaður og afi minn líka og ég man eftir mér að hafa verið lítill polli í kringum pabba þegar hann var að fara út á sjó og þótt þetta allt saman mjög merkilegt og spennandi.“