Þannig lýsir Anna Sigríður Sigurðardóttir augna blikunum áður en snjóflóð féll á heimili fjölskyldunnar
á Flateyri 14. janúar síðastliðinn. Anna Sigga komst út af sjálfsdáðum með yngri börnin tvö en Alma, 14 ára, grófst undir flóðinu þegar það fyllti svefnherbergið hennar. Björgunarsveitarfólk á svæðinu var þá þegar komið í gallana þegar neyðarkallið kom því þetta voru ekki fyrstu hamfarirnar það kvöldið.
Fjölskyldan fluttist aftur í Hafnarfjörð í lok sumars en þar hefur Anna Sigga verið búsett meira og minna undanfarinn áratug en er fædd og uppalin í Garðabæ. Anna er spænskukennari að mennt en fyrir rúmum tveimur árum ákvað hún að venda kvæði sínu í kross og takast á við nýtt og spennandi starf sem kennslustjóri við Lýðskólann á Flateyri.
„Ég flutti með börnin mín þrjú og köttinn og við vorum fljót að aðlagast lífinu á Flateyri enda afskaplega gott fólk sem þar býr og náttúrufegurðin engu lík.“
Hún segir fyrri veturinn þeirra á Flateyri hafa verið bæði snjó— og átakalítinn. Þau hafi í rauninni orðið fyrir smávegis vonbrigðum vegna snjóleysisins þar sem skíðasvæðið var aðeins opið nokkrar helgar yfir veturinn. Öðru máli gegndi um seinni veturinn.
„Það má segja að hann hafi staðið frá byrjun janúar og alveg fram á vor. Hann virtist óendanlega langur og hver óveðurshrinan tók við af annarri og það kyngdi endalaust niður snjó. Þegar komið var fram í miðjan janúar var ég aðeins farin að ókyrrast yfir veðurofsanum enda sást varla út um glugga á húsinu. Staðan á snjóalögum fyrir ofan snjóflóðagarðinn var ekki mælanleg þar sem skyggni var ekkert og því í raun algjört óvissustig. Kettirnir mínir voru hættir að fara út úr húsi og vegurinn út úr þorpinu var búinn að vera ófær í marga daga.“
Daginn sem snjóflóðið féll var Anna heima með börnin vegna ófærðar. „Það var fárviðri og ekkert skyggni allan daginn og þegar líða tók á kvöldið var ég nú aðeins óróleg.“
Anna segir þó engan hafa grunað annað en að fjölskyldan væri fullkomlega örugg, enda húsið staðsett við rætur snjóflóðavarnargarðsins. Það hafi því verið mikið áfall fyrir allt þorpið þegar varnirnar brugðust, mikið eignatjón varð og minnstu mátti muna að manntjón hefði orðið þetta örlagaríka þriðjudagskvöld.