Stúlku bjargað úr snjóflóði á Flateyri

Vestfirðir

Skjót viðbrögð björgunarmanna í þorpinu skiptu sköpum.

„Ég gekk fram hjá herbergi Ölmu nokkrum mínútum áður en snjóflóðið féll. Ég man að ég snéri við, fór inn til hennar og ákvað að gefa henni smá faðmlag og koss fyrir svefninn.“

Þannig lýsir Anna Sigríður Sigurðardóttir augna­ blikunum áður en snjóflóð féll á heimili fjölskyldunnar
á Flateyri 14. janúar síðastliðinn. Anna Sigga komst út af sjálfsdáðum með yngri börnin tvö en Alma, 14 ára, grófst undir flóðinu þegar það fyllti svefnherbergið hennar. Björgunarsveitarfólk á svæðinu var þá þegar komið í gallana þegar neyðarkallið kom því þetta voru ekki fyrstu hamfarirnar það kvöldið.

Fjölskyldan fluttist aftur í Hafnarfjörð í lok sumars en þar hefur Anna Sigga verið búsett meira og minna undanfarinn áratug en er fædd og uppalin í Garðabæ. Anna er spænskukennari að mennt en fyrir rúmum tveimur árum ákvað hún að venda kvæði sínu í kross og takast á við nýtt og spennandi starf sem kennslustjóri við Lýðskólann á Flateyri.

„Ég flutti með börnin mín þrjú og köttinn og við vorum fljót að aðlagast lífinu á Flateyri enda afskaplega gott fólk sem þar býr og náttúrufegurðin engu lík.“

Hún segir fyrri veturinn þeirra á Flateyri hafa verið bæði snjó— og átakalítinn. Þau hafi í rauninni orðið fyrir smávegis vonbrigðum vegna snjóleysisins þar sem skíðasvæðið var aðeins opið nokkrar helgar yfir veturinn. Öðru máli gegndi um seinni veturinn.

„Það má segja að hann hafi staðið frá byrjun janúar og alveg fram á vor. Hann virtist óendanlega langur og hver óveðurshrinan tók við af annarri og það kyngdi endalaust niður snjó. Þegar komið var fram í miðjan janúar var ég aðeins farin að ókyrrast yfir veðurofsanum enda sást varla út um glugga á húsinu. Staðan á snjóalögum fyrir ofan snjóflóðagarðinn var ekki mælanleg þar sem skyggni var ekkert og því í raun algjört óvissustig. Kettirnir mínir voru hættir að fara út úr húsi og vegurinn út úr þorpinu var búinn að vera ófær í marga daga.“

Daginn sem snjóflóðið féll var Anna heima með börnin vegna ófærðar. „Það var fárviðri og ekkert skyggni allan daginn og þegar líða tók á kvöldið var ég nú aðeins óróleg.“

Anna segir þó engan hafa grunað annað en að fjölskyldan væri fullkomlega örugg, enda húsið staðsett við rætur snjóflóðavarnargarðsins. Það hafi því verið mikið áfall fyrir allt þorpið þegar varnirnar brugðust, mikið eignatjón varð og minnstu mátti muna að manntjón hefði orðið þetta örlagaríka þriðjudagskvöld.

„Yngsta dóttir mín, Katrín Svala, sem þá var fimm ára, var að fara að sofa og vildi endilega sofa ber að ofan. Ég man eftir að hafa hugsað að það væri nú kannski skynsamlegra að hafa hana í einhverjum meiri fötum, svona ef eitthvað skyldi gerast. Ég gekk fram hjá herbergi Ölmu nokkrum mínútum áður en flóðið féll. Ég man að ég snéri við og fór inn til hennar og ákvað að gefa henni smá faðmlag og koss fyrir svefninn. Örfáum mínútum síðar er ég stödd inni í stofu og sé að vinkona mín á Flateyri hafði reynt að hringja í mig svo ég hringdi í hana til baka. Þá segir hún mér að stórt snjóflóð hafi fallið á höfnina. Örfáum sekúndum síðar fellur snjóflóð á húsið okkar þar sem ég er með hana ennþá í símanum.

Það bjargaði mér að ég stóð með bakið upp við burðarvegg í stofunni og fékk ég því aðeins lítinn snjó á mig. Engu að síður náði hann mér upp í mitti og ég þurfti að hafa aðeins fyrir því að koma mér upp úr skaflinum. Þá sá ég að herbergi Ölmu var fullt af snjó, hér um bil alveg upp í loft. Ég gerði mér strax grein fyrir því að hún væri grafin undir snjónum.“

Anna Sigga komst yfir stóra snjóskaflinn sem fyllti meira og minna allt húsið, yfir til hinna barnanna sem voru ómeidd og náði að komast með þau út um glugga í svefnherberginu sínu.

„Það leið ekki langur tími þar til að björgunarsveitin mætti á vettvang og við fórum yfir til nágranna okkar í öruggt skjól. Sem betur fer var björgunarsveitarfólkið komið á vettvang vegna fyrra snjóflóðsins og viðbragðstíminn því stuttur.“

Anna gat strax sagt þeim í hvaða herbergi Alma var og hvar rúmið hennar var staðsett. „Ég þekkti alla björgunarsveitarmeðlimina sem þarna voru komnir. Margir þeirra eru með lítil börn á leikskóla með minni yngstu og aðrir með börn í grunnskólanum. Svo biðum við fregna af Ölmu.“

Anna Sigga segir það vissulega hafa tekið á að bíða í rúmar þrjátíu mínútur og vita ekki hvort dóttir hennar væri lífs eða liðin. Við tóku símtöl, fyrst til föður Ölmu þar sem hún greindi honum frá aðstæðum og síðan í föður yngri barnanna sem var búsettur á Ísafirði. Eftir rúma hálfa klukkustund fékk hún loks fregnir af því að Alma væri fundin en ekki í hvaða ástandi hún var.

„Seinna var mér sagt að hún hefði hreyft sig en væri köld. Farið var með hana niður í íþróttahús og stuttu síðar fóru börnin mín yngri heim til góðrar vinkonu og fjölskyldu hennar og ég til Ölmu í íþróttahúsið. Þar var mikil gæfa að hafa hjúkrunarfræðing úr þorpinu sem vissi upp á hár hvað átti að gera til að hita hana upp. Ég hélt í þá vissu allan tímann á meðan ég beið í bílnum að Alma myndi finnast heil á húfi. Yngri dóttir mín var alveg stjörf og fékk mikið áfall. Sonur minn 10 ára var mikið að hughreysta sjálfan sig og okkur og talaði um að allt myndi fara vel.“

Margir á Flateyri voru að upplifa stór snjóflóð í annað sinn og margir höfðu misst vini eða ættingja í flóðinu 1995. „Það voru því miklar og erfiðar tilfinningar sem ýfðust upp við þetta flóð. Auðvitað hjálpaði líka að mannbjörg varð og ekki fór eins illa og á horfðist. Alma bjargaðist og var heil á húfi.“

„Auðvitað velti ég því stundum fyrir mér hvernig hefði farið ef björgunarsveitin hefði ekki komist svona hratt á vettvang, ef ég hefði ekki staðið þar sem ég stóð, ef flóðið hefði fallið um miðjan dag og svo framvegis en ég dvel ekki mikið við þær hugsanir.“

    Alma ásamt bjargvættum sínum; björgunarsveitarfólkinu sem gróf hana undan snjónum og hjúkrunarfræðingi sem hlúði í kjölfarið að henni. Ljósmyndari: Eyþór Jóvinsson
    Alma ásamt bjargvættum sínum; björgunarsveitarfólkinu sem gróf hana undan snjónum og hjúkrunarfræðingi sem hlúði í kjölfarið að henni. Ljósmyndari: Eyþór Jóvinsson

Að sögn Önnu kom áfallið að mestu leyti fram 3-4 mánuðum eftir flóðið. „Þá var ég búin að ganga ansi lengi á varatankinum. Ég áttaði mig ekki alveg á því að ég var búin að vera mikið uppspennt og alltaf á iði, kannski til að deyfa óþægindin. Í apríl minnkaði ég við mig vinnu og í lok maí hætti ég alveg að vinna því þá brotnaði ég niður einn daginn. Í kjölfarið var mér ráðlagt af áfallasálfræðingi að fara í veikindaleyfi og hef verið að byggja mig upp síðan. Ég er nýkomin inn í VIRK og líst mjög vel á það uppbyggingarstarf sem fer þar fram. Eftir að hafa lent í áfalli skiptir miklu máli að lágmarka alla streitu og hugsa vel um líkama og sál. Alma, sem lenti í þessu öllu saman, hefur haldið sinni stóísku ró í gegnum allt. Helst er það yngsta dóttir mín sem er svolítið lífhrædd og er afar illa við vont veður og myrkur eftir að hafa lent í þessum aðstæðum. Við höfum öll notið aðstoðar áfallasálfræðings og sú aðstoð og eftirfylgni sem okkur var boðin var til fyrirmyndar.“

Anna vonast eftir mildari vetri í ár og þá sérstaklega fyrir hönd Vestfirðinga. Hún segir það góða tilfinningu að vita að hér eftir verður öðruvísi tekið á málum og hús á hættusvæði verða rýmd ef þessar aðstæður skapast aftur.

„Þrátt fyrir að enginn óski sér þess að lenda í snjóflóði, og ekki sé hægt að segja að það fylgi því neitt sérlega góðar minningar, þá hugsa ég með afskaplega mikilli gleði og hlýju til veru okkar á Flateyri og ekki síst þeirrar miklu hlýju, samstöðu og vinskap sem við upplifðum frá Flateyringum og nærsveitungum. Ég er afar þakklát því að ekki fór verr og auðvitað er ekki hægt að þakka björgunarsveitinni nægilega vel fyrir lífsbjörgina. Það er auðvitað stórkostlegt að upplifa slíkan stuðning og sjá hversu vel manneskjan er gerð þegar á reynir. Við höfum eignast vini og myndað tengsl við fólk fyrir lífstíð sem eflaust hefðu ekki orðið eins djúp ef tíðindalaust hefði verið þennan vetur.“

Takk fyrir að lesa söguna

Stúlku bjargað úr snjóflóði á Flateyri
  • Staðsetning
    Flateyri Önundarfirði
  • Dagsetning atburðar
    14.01.2020
  • Birt á vef
    11.11.2020
  • Ljósmyndir
    Björgunarfólk
  • Texti
    Sólveig Jónsdóttir

Starfið stendur og fellur með fólkinu í landinu

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum