„Ég er mjög stolt af þessari viðurkenningu enda liggur gríðarlega mikil vinna á bak við hana. Líf hóf þjálfun til leitarhunds þegar hún var 10 vikna gömul og hún verður 11 ára núna 8. desember, sem er einmitt líka sá dagur sem Björgunarhundasveit Íslands (BHSÍ) var stofnuð árið 1980“, segir Guðrún Katrín. Hjá BHSÍ fer fram leitarþjálfun hunds og eiganda en alla aðra þjálfun hundaeigenda sjá aðildarsveitir Landsbjargar um. Hjálparsveit skáta í Garðabæ hefur á að skipa nokkrum mjög öflugum og reynslumiklum leitarteymum og þar eru einnig ungir hundar í þjálfun.
Guðrún Katrín og Líf hafa verið á útkallsskrá í tæp 9 ár og hafa reynt ýmislegt á þeim tíma. Líf hefur þannig farið í útkall í bíl, snjóbíl, fljúgandi í flugvél og þyrlu, farið í verkefni á höfuðborgarsvæðinu og um allt land. Þegar skriðan féll á Seyðisfjörð í desember á síðasta ári tóku björgunarsveitir utan Austurlands ekki þátt í aðgerðum vegna Covid-19 faraldursins, en leitarhundar og þar á meðal Líf, voru fengnir til að sinna hlutverki öryggishóps til handa viðbragðsaðilum á svæðinu ef til frekari skriðufalla kæmi.
Á bak við þjálfun leitarhunda liggur þrotlaus vinna en Líf hefur meðal annars lokið útkallsprófi í víðavangsleit, snjóflóðaleit og rústaleit og er þessa dagana í þjálfun til prófs í sporaleit. Guðrún Katrín segir þó að hún hafi þurft að hafa töluvert fyrir Líf á fyrstu dögum þjálfunarinnar. „Hún var svakalega ör, langaði til að gera allt og helst allt í einu. Það tók tíma og vinnu fyrir okkur að ná takti en eftir að við náðum honum varð hún eins og hugur manns. Ég er byrjuð að þjálfa aðra tík, Kolkuós Vök, sem kemur til með að taka við af Líf þegar fram í sækir. Vök er allt öðruvísi. Vinnusöm eins og Líf en miklu yfirvegaðari. Líf á svolítið erfitt með þennan nýja félagsskap en hún er góð við Vök svo þetta gengur vel,“ segir Guðrún Katrín að lokum.
Tekur tíma og vinnu að ná takti saman
Í nóvember var tilkynnt um val á Afrekshundi ársins 2021, að þessu sinni var það leitarhundurinn Kolkuós Líf, sem er liðsmaður í Hjálparsveit Skáta í Garðabæ.
Takk fyrir að lesa söguna
Tekur tíma og vinnu að ná takti saman